þriðjudagur, 11. desember 2007

Ég hef...

...vaskað upp í baðvaskinum í 50 daga.
...„eldað” á gamla prímus tengdaföður míns í 50 daga.
...látið eins og ekkert sé í 50 daga.
...farið 18 sinnum í IKEA á síðustu 50 dögum.
...viðurkennt að ég er ekkert öðruvísi en aðrir sem standa í framkvæmdum.
...það tekur alltaf allt helmingi lengri tíma en maður áætlar í framkvæmdum líka hjá mér.
...komist að því að rými sem hefur tilgang er helmingi stærra en tilgangslaust.
...platað son minn til að flytja inn í sitt eigið herbergi með því að segja honum að jólasveinarnir finni hann annars ekki.
...komist að því að ég á mjög góða vini og fjölskyldu sem hafa gefið okkur vel að borða í 50 daga.
...falið óþolinmæði mína af kostgæfni í 50 daga.
...komist að því að maðurinn minn er brjálæðislega vandvirkur og mjög fær í að leysa vandamál þó hann leysi þau öðruvísi en ég.
...komist að því að iðnaðarmenn mæta þegar maður þarf á þeim að halda.
...að besta aðferðin til að fá iðnaðarmenn til að mæta er að minnast á barnið sitt í samhenginu.
...komist að því nýja eldhúsið, nýja barnaherbergið og brjálæðislega flotta parketið er miklu fallegra en mig hafði nokkurn tíma grunað.
...enn tíma til að hlakka til að prófa nýju uppþvottavélina, það á eftir að tengja hana.
...áttað mig á því að það er allt í lagi að vaska aðeins lengur upp í baðvaskinum, það er ekki búið að tengja eldhúsvaskinn alveg.
...komist að því að jólaskapið kemur þó að sökkullinn sé ekki komin á innréttinguna, háfurinn sé ekki komin upp á vegg, allt sem tilheyri eldhúsinu sé ennþá í kössum niðri í kjallara og stigagangurinn sé fullur af drasli og verkfærum og ýmsu öðru sem ætti ekki að vera þar.
...komist að því að mér ber engin skylda til að baka, þrífa, skreyta, pakka, skrifa jólakort og gera þetta „allt” sem ég er farin að hlakka til að fá spurningar um.
...fullt hjarta af jólagleði og hamingju.

þriðjudagur, 4. desember 2007

Björgum Britney

Nú detta mér allar dauðar lýs úr hári, Britney farin að stela jökkum í partýjum líka. Hvar endar þetta hjá greyið stúlkunni. Það er spurning hvort íslenska þjóðin ætti ekki að taka höndum saman og bjarga stúlkunni frá þessum hrægömmum í LA. Við höfum nú þegar bjargað nokkrum frá Bandaríkjunum, háhyrningi, skáknördi og nú síðast björguðum við ungum Íslendingi frá lögum hins alræmda Texasríkis. Við erum rómuð fyrir góðar áfengismeðferðir og ef fram fer sem horfir gætum við bjargað börnunum hennar Britney frá því að þurfa að alast upp fyrir framan myndavélarnar. Björgum Britney!

fimmtudagur, 22. nóvember 2007

Verklagni


Þessir menn eru að setja upp hindranir fyrir bíla svo að þeir leggi ekki upp á gangstétt fyrir utan írskan sportbar. Þeir eru að ganga frá eftir daginn.

Hvað ætli það taki þá langan tíma að átta sig á mistökunum?

sunnudagur, 30. september 2007

Kassadólgar

Hún situr í mér umræðan um hortugheit innfæddra við afgreiðslufólk. Það orsakast af því að ég á mjög margar, slæmar og góðar, minningar um kúnna sem ég afgreiddi á hinum ýmsu stöðum í borginni. Ég man jafn vel hvernig kúnnarnir komu fram við mig og hvernig þeir lyktuðu. Mér lærðist margt um spendýrið manninn á því að bjóða fram þjónustu mína. Maðurinn þarf oft á tíðum að láta aðra finna fyrir tilfinningum sínum og ferst misvel að halda sig innan eðlilegra siðferðismarka. Tilfinnanlegast var að finna fyrir virðingarsleysi sumra gagnvart starfsstéttinni sem ég tilheyrði með því að gera tilraun til að stækka sig með því að níðast á mér.

Það tók smá tíma að læra að spegla þessi hortugheit alltaf strax til baka og það varð að sérstöku áhugamáli hjá mér að halla undir flatt á myndbandaleigunni, sem ég var einu sinni að vinna á og spyrja með einlægni og festu: ,, Æi, er þetta slæmur dagur hjá þér?". Vitanlega voru viðbrögðin misjöfn, en oftast fékk ég afsökunarbeiðni í veganesti fyrir næsta kúnna.

Á þessum tíma fannst mér sjálfsagt að það yrði partur af skólaskyldu að hver einasti borgari þyrfti að vinna í þjónustustarfi í að minnsta kosti ár, þá fyrst gæti heimurinn orðið betri. Í dag veit ég að það myndi engu breyta það er til of mikið af fólki sem setur sig aldrei í samhengi við aðstæður og er alveg sama um náungann.

Í dag fékk ég skemmtilegri hugmynd, hún gæti allavega virkað vel í IKEA, því þar er víst svo mikil mannekla. Sá sem er hortugur við afgreiðslufólk fær þá afarkosti að greiða þrjátíu þúsund króna sekt á staðnum ellegar starfa á kassa í þrjá daga með loforði um bót og betrun.
Reynt yrði að setja geranda í svipaðar aðstæður og aðstæður þolanda þegar brotið væri framið. Við það myndi kassadólgurinn sem var hortugur við heyrnarskertu afgreiðslustúlkuna þurfa að vera með tappa í eyrum eða þétt heyrnartól til að skilja brot sitt til fullnustu. Enn skemmtilegra yrði að setja gerandann í appelsínugulann galla (yrði mjög áberandi í IKEA) merktan ,,Kassadólg".

IKEA fengi náttúrulega miklu glaðara og keikara starfsfólk út úr þessu öllu saman og jafnvel betraða dólga til viðbótar við sitt fyrra starfslið. Og ég hefði enn meira gaman af að fara í verslanir að skoða dólgana.

föstudagur, 28. september 2007

Pretty Woman vs Casablanca




















Ætli það verði einhvern tíma cool að hengja bíóplakatið fyrir Pretty Woman upp á vegg í stofunni eins og plakatið fyrir Casablanca? Mig langar í flott plakat og það eina sem kemur upp í hugann er Pretty Woman. Frekar slæmt. Myndin hefur líklega verið í sýningu þegar ég var fjórtán, og ég hef líklega séð hana oftar en allar aðrar myndir af því þá fannst mér hún æði. En ég bara sé þetta ekki fyrir mér. Mér hlýtur að detta eitthvað annað í hug, Pretty Woman plakatið er ekki einu sinni flott. Ég tengi bara ekkert við Casablanca.


fimmtudagur, 13. september 2007

Ellikelling

Ég stal þessum myndum af bloggi félaga Gunna http://www.gunztone.blogspot.com/







Nevermind barnið er orðið 17 ára. Ég hefði skotið á að platan væri svona 10 ára gömul...


miðvikudagur, 12. september 2007

Sigruðardóttir

Ég var að taka eftir því núna að ég er Sigruðardóttir á þessu bloggi. Mér sýnist ég þurfa að lifa með því frekar en að búa til nýja síðu því ég get ekki séð neina leið til að breyta þessu. Og bíp forði mér frá því að þurfa að hugsa upp fleiri ný lykilorð að lífi mínu.

Ég hélt að bankinn myndi hætta að rukka mig um að skipta um lykilorð á þriggja mánaða fresti þegar ég fékk aðgangslykilinn.

Ég hélt ekki að starf mitt væri svo merkilegt að ég þyrfti að skipta um lykilorð á vinnutölvunni á þriggja mánaða fresti.

Ég er auðheyrilega lens í lykilorðum, ég er hætt að muna þau. Og þarf þá að fara að skrifa þau niður og þá er tilgangurinn með þeim orðin að engu.

Spurning um að viða að sér latneskum heitum á plöntum eða skordýrum til að gera næstu lykilorðahrinu lærdómsríkari. Gæti notað einhverja skemmtilega plöntuorðabók til hliðsjónar.

Blogg er kannski ekki besti staðurinn fyrir svona vangaveltur. Núna get ég ekki notað þessa lausn.

miðvikudagur, 29. ágúst 2007

Ég er Latte

Samkvæmt kaffiprófinu er ég
Latte!
og samanstend af tvöföldum espresso og flóaðri mjólk.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?


Sem þýðir að ég er: „skapstór og íhaldsöm og læt ekki bjóða mér hvað sem er. Undir vissum kringumstæðum leyfi ég mér að prófa nýjungar, en þó aðeins að vel athuguðu máli".

þriðjudagur, 28. ágúst 2007

Húsráð: Geitungabit

Það er komið, geitungatímabilið ógurlega. Ég lærði húsráð í Ásbyrgi í sumar. Taka sykurmola, bleyta hann og setja á bitið og þá sýgur sykurinn í sig eitrið. Snilld sem kom frá meindýraeyðinum í næsta tjaldi. Takk fyrir hjálpina.

Brunavarnir

Í ljósi þess að það kviknaði næstum því í lifrapylsukeppnum, og svo aftur næstum því út frá gammalli straupressu sem er í þurrkherberginu í kjallaranum, fór ég í brunavarna leiðangur í dag. Fékk mér slökkvitæki, eldvarnarteppi og nýja reykskynjara. Og þvílík snilld, það er hægt að fá reykskynjara með sendum, þannig að ef það kviknar í í kjallaranum þá pípir reykskynjarinn þar og líka reykskynjarinn uppi hjá mér. Og svo öfugt, ég elska svona uppfinningar.

Húsráð: Brunalykt

Það kviknaði næstum í heima hjá nágrönnunum fyrr í sumar þegar lifrapylsukeppur í plastumbúðum bráðnaði í suðupotti þegar vatnið kláraðist. Ég fann einhverja skrítna lykt þegar ég kom inn í húsið en lyktin var alveg eins og þegar verið er að hita upp óhreint grill og þar sem þetta var í hitabylgjunni góðu í júní þá kippti maður sér svo sem ekkert upp við það. En reykskynjarinn í íbúðinni þeirra bjargaði þessu öllu fyrir horn og engar skemmdir á neinu nema lifrapylsukeppnum sem ku þó hafa bragðast mjög vel eftir meðferðina.
Verandi móðir og tiltölulega paranojuð þegar kemur að eldi og reykeitrun þá hringdi ég í slökkviliðið stuttu eftir lætin til að fá staðfestingu á því að það væri óhætt að vera innandyra í brælunni. Ég var sein til sannfæringar en eftir smá mæðu kenndi slökkviliðsmaðurinn mér húsráð, að niðurskorin laukur myndi drepa það litla sem eftir væri, lyktina. Ég þagna alltaf þegar ég heyri gott húsráð. Og það virkaði, lyktin hvarf á augabragði.

miðvikudagur, 8. ágúst 2007

Sérverslanir

Það má ýmislegt skera við nögl og versla í vöruhúsum en ég leyfi mér þann lúxus að kaupa alltaf brauð í bakaríum, kaffibaunir í kaffibúðum, fisk í fiskbúðum, kjöt í kjötbúðum og vín í vínbúðum. Þar sem þessar búðir teljast til sérverslana þá ætti þjónustustigið að vera í efsta gæðaflokki. Í flestum tilvikum er það raunin en þar sem maður fær vínið einungis í vínbúðum þá er svo sem ekkert hægt að vera mjög gagnrýnin á þær, þær hafa að minnsta kosti tekið miklum framförum á síðustu árum eða síðan að maður gat farið að tala upphátt um að maður drekki vín.

Ég reikna með að ég fari svona um það bil þrisvar sinnum í viku í bakarí en þar hefur þjónustustigið aftur á móti lækkað. Vöruframboðið hefur reyndar aukist margfalt á meðan framboð á starfsfólki hefur hríðversnað. Ég held að ég hafi aldrei orðið vitni af eins miklum mannabreytingum eins og í Bakarameistaranum í Suðurveri þegar ég bjó í Hamrahlíðinni. Á hverjum laugardegi var að minnsta kosti verið að þjálfa tvær nýjar stúlkur og líklega hefur ein af hverjum fimmtán haldist í starfi lengur en í mánuð. En það er efni í langan stóran framhaldspistil hvað ungt fólk í dag á auðvelt með að skipta um vinnu (ég vil ekki hljóma eins og ég sé komin yfir sextugt en á margan hátt er ég það, það verður bara að viðurkennast ég er mjög ferköntuð). En á sama tíma og bakaríum helst illa á starfsfólki og framboðið á brauði hefur aukist hefur merkingarkerfið einhvern veginn brugðist.

Ég stend mig að því að fyllast miklum valkvíða þar sem ég stend í röð með númer í hönd og horfi á tíu tegundir af fallegum brauðum í hillunum og í höfuðið hrannast upp spurningar um innihald brauðanna sem ég veit að ég fæ ekki svör við þegar það kemur að mér því afgreiðslustúlkan(ég hef aldrei séð dreng vinna í bakaríi, sorrý) á ekki eftir að geta svarað mér og hún þarf að spyrja aðra sem gerir það að verkum að ég tef ekki bara fyrir röðinni sem ég er í heldur líka hinni og allt fer í steik í hausnum á mér (af því ferköntunin gerir mann svo déskoti kurteisan, sjáðu til) svo það endar alltaf með því að ég bendi á hillu og segi: ,,Nei ekki þetta heldur næsta við hliðina á því, já þetta takk og hvað heitir þetta brauð?" (því einhvern vegin líður mér betur að borða brauð sem ég veit hvað heitir, það er búið að eyða mikilli vinnu í að skíra brauðin og nöfnin gætu gefið örlitla mynd af innihaldinu). Svo kem ég heim og borða brauð sem mig jafnvel langaði ekki í og næst þegar ég fer í bakaríið man ég ekki hvort mér líkaði það eða ekki af því ég vissi ekki hvað var í því.

Í kaffisérverslununum er allar baunir merktar og afgreiðandinn segir mér allt um styrk, gæði og framleiðsluferli baunanna, í fisk og kjötbúðunum er pinni með merkingu í öllum tegundum og samt er afgreislufólkið mjög frótt um vöruna.

Ég vil fá merkimiðana aftur í brauðin.

mánudagur, 6. ágúst 2007

Frilokakæti

Eftir fimm vikna sumarfrí, sem ég skil núna af hverju var fundið upp, er ég þreytt, þunn og ætti að vera löngu farin að sofa, var útkvíld í gær en eftir mjög gott partý í gærkvöld eru batteríin aftur tóm. Ég hlakka til að fara aftur að vinna á þriðjudaginn, ég veit að þar býður mín haust dagskrá til að kynna og þá er gaman. Sjónvarpsdagskráin verður aftur þéttskipuð snilld og ég get hætt að sauma og taka til í skápunum á síðkvöldum mmmm. Svo er farið að dimma aftur og þá fer steingeitinni að líða betur. Styttist í slyddu og myrka hrollkalda morgna. Ok, það er kannski full snemmt að kveðja sumarið en eftir áratuga þjálfun í slæmum sumrum er þetta sumar búið að sanna sig nú þegar. En nú kallar rúmið, góða nótt.

sunnudagur, 15. júlí 2007

Barngott fólk

Úff, við litla fjölskyldan lentum í Keflavík núna áðan, eftir tveggja vikna dvöl á Krít, um kl.4 og erum ekki enn farin að sofa því Siggi svaf alla leiðina og er á Krítískum tíma(Krítar brandararnir eru ekki fyndnir mjög lengi, ég veit) klukkan var sem sagt um sjö hjá honum þegar við lentum en við foreldrarnir erum komin með liðaverki af svefnleysi. Við höfum þó ákveðið að vaka saman af því það er skemmtilegra en að skiptast á að sofa, búin að taka uppúr töskum og erum nú sérstaklega skemmtilegir foreldrar í sitthvorri tölvunni að ná okkur uppúr netleysinu síðustu daga. Við vorum á æðislegu fimm stjörnu hóteli(í boði mömmu) en á æðislegum hótelum er nauðsynleg þjónusta oft dýrari en ella svo við ákváðum að borga ekki þúsund kall á dag fyrir kapalnettengingu, þorðum ekki einu sinni að spyrja hvað þráðlaus tenging kostaði. En þó þjónustan hafi kostað sitt var hótelið stórkostlegt... en nú er guttinn orðinn eirðarlaus og eina vitið að fara í sund sýnist mér á ástandinu, það er reyndar spurning hvort við foreldrarnir höfum krafta í það. Ég held áfram seinna að dásama hótelið og Grikkina sem eru eins og fyrirsögnin segir mjög barngott fólk.

Ef þið finnið brúnt fólk á botni Vesturbæjarlaugarinnar í dag þá eru það líklega við Egill.

fimmtudagur, 21. júní 2007

Bless Moggablogg

Ég er sennilega bara svona feimin eða spéhrædd, en ég fann mig ekki á Moggablogginu, þó svo að ég hafi fengið keppnis fiðring þegar teljarinn rauk upp úr öllu valdi og fylltist stundum spenningi þegar einhver kommentaði, þá einhvern vegin finnst mér betra að skrifa án þess að finna fyrir umræðu blogg æðinu, það er engu líkara en að þjóðin hafi legið afskipt í myrkvuðu raddleysi hingað til því áhuginn er svo gífurlegur á að láta í ljós skoðun sína á öllu og engu. Þetta er ekki neikvæð gagnrýni því ég er ein af þeim sem greip tækifærið, þó ég hafi ekki fundið minn takt á þeim vettvangi. Ég held að mér eigi eftir að líða betur í þessu umhverfi því mér sýnist fólk leyfa sér að blogga persónulegar hér en á „opinberum” fjölmiðlabloggum. Og það finnst mér skemmtilegra.

Ég lít á þetta hrafl sem skriftar- og stíl æfingar og góðan vettvang til að pæla í hlutum sem maður á kannski auðveldara með að koma frá sér á tölvutæku en munnlegu. Og nú er ég búin að yfirlýsa að hér verði ég áfram þrátt fyrir yfirlýsingar um annað í gær. Það er mér léttir að geta skipt reglulega um skoðanir, því annars ætti ég erfitt með að vera yfirlýsingaglöð.

miðvikudagur, 20. júní 2007

Mögulegur flutningur

Er að spá í að flytja mig hingað, mér finnst moggabloggið vera svo keppnis. Ég held það eigi betur við mig að vera ósýnilegri, eða frekar þannig að ég upplifi mig ósýnilegri. Ég ætla allavega að spara yfirlýsingarnar og prófa þetta í einhvern tíma.