þriðjudagur, 11. desember 2007

Ég hef...

...vaskað upp í baðvaskinum í 50 daga.
...„eldað” á gamla prímus tengdaföður míns í 50 daga.
...látið eins og ekkert sé í 50 daga.
...farið 18 sinnum í IKEA á síðustu 50 dögum.
...viðurkennt að ég er ekkert öðruvísi en aðrir sem standa í framkvæmdum.
...það tekur alltaf allt helmingi lengri tíma en maður áætlar í framkvæmdum líka hjá mér.
...komist að því að rými sem hefur tilgang er helmingi stærra en tilgangslaust.
...platað son minn til að flytja inn í sitt eigið herbergi með því að segja honum að jólasveinarnir finni hann annars ekki.
...komist að því að ég á mjög góða vini og fjölskyldu sem hafa gefið okkur vel að borða í 50 daga.
...falið óþolinmæði mína af kostgæfni í 50 daga.
...komist að því að maðurinn minn er brjálæðislega vandvirkur og mjög fær í að leysa vandamál þó hann leysi þau öðruvísi en ég.
...komist að því að iðnaðarmenn mæta þegar maður þarf á þeim að halda.
...að besta aðferðin til að fá iðnaðarmenn til að mæta er að minnast á barnið sitt í samhenginu.
...komist að því nýja eldhúsið, nýja barnaherbergið og brjálæðislega flotta parketið er miklu fallegra en mig hafði nokkurn tíma grunað.
...enn tíma til að hlakka til að prófa nýju uppþvottavélina, það á eftir að tengja hana.
...áttað mig á því að það er allt í lagi að vaska aðeins lengur upp í baðvaskinum, það er ekki búið að tengja eldhúsvaskinn alveg.
...komist að því að jólaskapið kemur þó að sökkullinn sé ekki komin á innréttinguna, háfurinn sé ekki komin upp á vegg, allt sem tilheyri eldhúsinu sé ennþá í kössum niðri í kjallara og stigagangurinn sé fullur af drasli og verkfærum og ýmsu öðru sem ætti ekki að vera þar.
...komist að því að mér ber engin skylda til að baka, þrífa, skreyta, pakka, skrifa jólakort og gera þetta „allt” sem ég er farin að hlakka til að fá spurningar um.
...fullt hjarta af jólagleði og hamingju.

þriðjudagur, 4. desember 2007

Björgum Britney

Nú detta mér allar dauðar lýs úr hári, Britney farin að stela jökkum í partýjum líka. Hvar endar þetta hjá greyið stúlkunni. Það er spurning hvort íslenska þjóðin ætti ekki að taka höndum saman og bjarga stúlkunni frá þessum hrægömmum í LA. Við höfum nú þegar bjargað nokkrum frá Bandaríkjunum, háhyrningi, skáknördi og nú síðast björguðum við ungum Íslendingi frá lögum hins alræmda Texasríkis. Við erum rómuð fyrir góðar áfengismeðferðir og ef fram fer sem horfir gætum við bjargað börnunum hennar Britney frá því að þurfa að alast upp fyrir framan myndavélarnar. Björgum Britney!