föstudagur, 21. mars 2008

Samkomustaðir

Ég var að vafra á vef Ljósmyndasafns Reykjavíkur í dag og lenti í tímagati, gleymdi mér í að skoða gamlar myndir úr miðborginni aðallega í leit að ljósmyndum af gamla Hótel Íslandi sem langafi minn átti og svo götunni sem ég bý við. Ekki fann ég mynd af gömlu götumyndinni en nokkrar af Hótel Íslandi, aðallega þó brunarústamyndir og kom þá í ljós að það ætti að vera til flokkur á ljósmynasafninu sem héti ,,Brunar í borginni", sérstaklega vinsælt myndefni. Á þessu vafri rakst ég einnig á helmikið af myndum af samkomum borgarbúa t.d. Jónsmessa haldin hátíðleg á Árbæjarsafni þar sem var dansað fram að sólsetri, miklar samkomur á Austurvelli, fjölmennar baráttugöngur niður Laugaveg og svo fjölsóttar sýningar af ýmsu tagi. Það var því kaldhæðnislegt að keyra fram á fornbílasýningu á bensínstöð stuttu síðar. Eina leiðin til að fá lýðin til að koma á sýningar er sem sagt að vera á stað þar sem fólk kemur af öðrum ástæðum en að sjá sýningargripina heldur kíkir við af því það vanhagar um eitthvað á bensínstöðinni. So sad.

miðvikudagur, 12. mars 2008

Ég segi...

...böggles en ekki bugles, pæoner en ekki pioneer (Gulli Helga gerir það líka í auglýsingunum frá Ormsson), seríós en ekki cheerios! Ég geri það af því ég er Íslendingur og hefi aldrei búið á erlendri grundu. Að því gefnu fyndist mér hræsni að þykjast búa yfir enskum hreim.

Þessi umræða kom upp í bílnum á leið í Bónus með manninum í dag, hann þreytist ekki á að leiðrétta mig þegar ég nota ensk orð. Held honum finnist það soldið sætt líka. Verst er að hann talar óaðfinnanlega dönsku og af þeim hæfileika öfunda ég hann. Mér finnst glatað að geta ekki borið Forbrydelsen rétt fram. En þökk sé Sjónvarpinu hef ég getað notað íslensku þýðinguna. Enn verra er að Glæpnum er lokið, sunnudagarnir eru hálf dauflegir eftir 18 vikna törn af prýðis sjónvarpsefni.

Það er sem sagt augljóst að ég snobba fyrir norðurlandamálunum og sé eftir að hafa ekki lagt mig meira fram um að læra dönskuna á sínum tíma. Er reyndar vel læs á dönsku en ég skil ekki orð í hlustun og á mjög erfitt með að detta ekki í þýskan hreim þegar geri heiðarlega tilraun til að tala hana. Það er fallegt að geta litið til baka og sjá að maður hefur breyst, já og svei mér þá ef maður hefur ekki þroskast líka síðan í Árbæjarskóla. Ég vona að Anna Kristjáns dönskukennari hafi fengið þakklátari nemendur en mig síðan námi mínu þar sleppti. Ég fæ hroll eftir allri mænunni þegar ég hugsa til þess hvað ég var leiðinlegur unglingur. Ohh, hvernig er hægt að vera svona þrjóskur og blindur á allt og alla í kringum sig. Ég vona að seinna breytingarskeiðið verði ekki svona galið. Ha hah ah, þá sjón vil ég sjá; konur á sextugsaldri með attitjúd dauðans út um allan bæ, gangandi um húfulausar og berleggjaðar í snjóbyl líkt og 40 árum fyrr. Og allar með þennan yndislega ungingsstúlknasvip sem er engin leið að líkja eftir, hálfopin munninn og augnaráð sem lýsir þvílíkri hneykslan að maður hrökklast frá flissandi.

föstudagur, 7. mars 2008

Ég man það var 2.apríl...

...en ekki hvaða ár það var sem ég fermdist. En ég er fædd '75 svo do the math.
Tók allan pakkann þó ég væri nú ekki þekkt fyrir dömulegheit: permó og ljós. Já, það var engin að velta fyrir sér hvort það væri hættulegt þá að fara í ljós. Permóið lak reyndar úr strýinu á nokkrum dögum en það hékk á fermingardaginn og aldrei meir, alltaf jafn furðulegt að sjá myndina heima hjá mömmu, krakkinn með snarkrullað hár einu sinni á ævinni og það var ljósmyndað í bak og fyrir.
Mig minnir reyndar að ég hafi verið alvön ljósabekkjum á þessum tíma, var send til að brúnka upp fyrir sólarlandaferð 9 ára gömul held ég, það þótti alveg óþægilega eðlilegt þá. Það var reyndar alveg út úr karakter fyrir krakkan í rifnu gallabuxunum af bróður sínum og takkaskónum að fara í ljós. Og ég brann alveg jafn mikið í sólinni á Mallorca þrátt fyrir uppbrúnkuna. En ég lifi.

Ég var einkennilega stressuð fyrir ferminguna, tók þetta allt mjög alvarlega. Leit mjög upp til prella(Sr.Guðmundur Þorsteinsson) og hef líklega aldrei verið með eins mikla trúarvitund á ævinni en þessar vikur sem fermingarfræðslan stóð yfir. Ég man þó ekki eftir að þetta hafi verið rætt á milli okkar vinanna en við pabbi hljótum að hafa diskúterað trúmálin eins og flest annað.
Ég tók þetta alla vega það nærri mér að ég át ekkert í marga daga og það uppgötvaðist ekki fyrr en í fermingarveislunni, þegar ég loksins slakaði á, þá áttaði ég mig á því að tertusneiðinn sem ég hámaði í mig var það fyrsta sem ég hafði borðað í 3-4 daga, ég man hvað ég var hissa. En ég stóð uppi í athöfninni og uppskar góðan hlátur í kirkjunni því ég játaði prella á innsöginu.

Það stendur samt alltaf hæst uppúr minningunum að mömmu tókst að sigra þrjósku dótturina í fyrsta skiptið þennan veturinn. Hún er mikil handavinnukona og líklega eftir að hafa þurft að sauma jakkaföt og bindi í jólaföt á mig árin áður stillti hún mér upp við vegg nokkrum mánuðum fyrir fermingu og sagði: ,,Sigrún, þú verður í kjól á fermingardaginn, ég ætla að sauma hann og það verður aldrei rætt meira". þetta virkaði því ég sá og heyrði á henni að annars gæti ég bara leitað annað eftir húsaskjóli. Ég maldaði ekkert í móinn og fékk með því að vera góð að taka þátt í að velja efnið og sniðið, dæsti svo í lágmarki yfir að þurfa standa uppá stól með títuprjóna í öllum skrokknum. Þetta fór því allt vel.

Fyndnast er nú sennilega þegar ég lít til baka hvað ég var feimin, ég man mér fannst algjör kvöl og pína að taka á móti gestum í mínu nafni og veislusiðir mínir voru ekki mjög kurteisislegir, meira brussulegir. Þannig var nú það.

miðvikudagur, 5. mars 2008

Það er ...

... orðið slappt ástandið á heimilinu þegar ég segi við manninn minn: ,,hva, kom konan ekkert í gær að þrífa?" hann svarar alltaf á sama veg; hvað hún sé löt og mæti illa. Þessi brandari er mjög viðeigandi í dag þegar runninn er upp fimmti dagur inflúensu hjá húshjálpinni, sem glöggir átta sig á að er ég, og sólin stirnir á ópússuðum speglum og gefur rykinu á gólfinu nýja vídd. En þar sem mér leiðist að þrífa eins og áður hefur komið fram þá reikna ég með að baka mikið í kvöld finnst það einhvern veginn sýna fram á að húshjálpin sé góð og vel meinandi þú hún mæti seint og illa í þrifin.

Fór til læknis í gær til að fá bót minna meina en fékk í staðin svona skemmtilegt móðursýkisásakandi komment frá lækninum að ég væri ekki með strepptokokka, ég minntist ekkert á neina strepptokokka og reiknaði ekkert með þeim. Furðulegur ávani hjá læknum að setja mann niður. Ég vildi bara að hann bjargaði lífi mínu... og inflúensa var það. Ég hef greinilega ekki fengið hana mjög lengi því ég hélt að þetta væri mitt síðasta. En þetta getur bara lagast héðan af.

mánudagur, 3. mars 2008

Úff...

... ég held ég hafi ekki fengið svona pest síðan ég var krakki. Er búin að vera rúmföst síðan á laugardaginn og nú örlar á smá matarlyst en ég held að röddinn verði farin fyrir miðnætti. Kannski maður heimsæki heimilislækninn í fyrsta skipti án barnsins á morgun. Það tók nú engan smá tíma að fá heimilislækni á sínum tíma ;o)

Talandi um heilbrigðiskerfið þá fór ég í smávægilega aðgerð á einkaskurðstofu um daginn og það var bara gaman. Ég held ég hafi aldrei séð syngjandi glaðar hjúkkur fyrr. Það var tónlist í gangi, boðið uppá nýmalaðann espresso og brosandi starfsfólk. Vá hvað það væri gaman ef heilbrigðisstarfsfólk væri allt á mannsæmandi launum.