sunnudagur, 30. september 2007

Kassadólgar

Hún situr í mér umræðan um hortugheit innfæddra við afgreiðslufólk. Það orsakast af því að ég á mjög margar, slæmar og góðar, minningar um kúnna sem ég afgreiddi á hinum ýmsu stöðum í borginni. Ég man jafn vel hvernig kúnnarnir komu fram við mig og hvernig þeir lyktuðu. Mér lærðist margt um spendýrið manninn á því að bjóða fram þjónustu mína. Maðurinn þarf oft á tíðum að láta aðra finna fyrir tilfinningum sínum og ferst misvel að halda sig innan eðlilegra siðferðismarka. Tilfinnanlegast var að finna fyrir virðingarsleysi sumra gagnvart starfsstéttinni sem ég tilheyrði með því að gera tilraun til að stækka sig með því að níðast á mér.

Það tók smá tíma að læra að spegla þessi hortugheit alltaf strax til baka og það varð að sérstöku áhugamáli hjá mér að halla undir flatt á myndbandaleigunni, sem ég var einu sinni að vinna á og spyrja með einlægni og festu: ,, Æi, er þetta slæmur dagur hjá þér?". Vitanlega voru viðbrögðin misjöfn, en oftast fékk ég afsökunarbeiðni í veganesti fyrir næsta kúnna.

Á þessum tíma fannst mér sjálfsagt að það yrði partur af skólaskyldu að hver einasti borgari þyrfti að vinna í þjónustustarfi í að minnsta kosti ár, þá fyrst gæti heimurinn orðið betri. Í dag veit ég að það myndi engu breyta það er til of mikið af fólki sem setur sig aldrei í samhengi við aðstæður og er alveg sama um náungann.

Í dag fékk ég skemmtilegri hugmynd, hún gæti allavega virkað vel í IKEA, því þar er víst svo mikil mannekla. Sá sem er hortugur við afgreiðslufólk fær þá afarkosti að greiða þrjátíu þúsund króna sekt á staðnum ellegar starfa á kassa í þrjá daga með loforði um bót og betrun.
Reynt yrði að setja geranda í svipaðar aðstæður og aðstæður þolanda þegar brotið væri framið. Við það myndi kassadólgurinn sem var hortugur við heyrnarskertu afgreiðslustúlkuna þurfa að vera með tappa í eyrum eða þétt heyrnartól til að skilja brot sitt til fullnustu. Enn skemmtilegra yrði að setja gerandann í appelsínugulann galla (yrði mjög áberandi í IKEA) merktan ,,Kassadólg".

IKEA fengi náttúrulega miklu glaðara og keikara starfsfólk út úr þessu öllu saman og jafnvel betraða dólga til viðbótar við sitt fyrra starfslið. Og ég hefði enn meira gaman af að fara í verslanir að skoða dólgana.

föstudagur, 28. september 2007

Pretty Woman vs Casablanca




















Ætli það verði einhvern tíma cool að hengja bíóplakatið fyrir Pretty Woman upp á vegg í stofunni eins og plakatið fyrir Casablanca? Mig langar í flott plakat og það eina sem kemur upp í hugann er Pretty Woman. Frekar slæmt. Myndin hefur líklega verið í sýningu þegar ég var fjórtán, og ég hef líklega séð hana oftar en allar aðrar myndir af því þá fannst mér hún æði. En ég bara sé þetta ekki fyrir mér. Mér hlýtur að detta eitthvað annað í hug, Pretty Woman plakatið er ekki einu sinni flott. Ég tengi bara ekkert við Casablanca.


fimmtudagur, 13. september 2007

Ellikelling

Ég stal þessum myndum af bloggi félaga Gunna http://www.gunztone.blogspot.com/







Nevermind barnið er orðið 17 ára. Ég hefði skotið á að platan væri svona 10 ára gömul...


miðvikudagur, 12. september 2007

Sigruðardóttir

Ég var að taka eftir því núna að ég er Sigruðardóttir á þessu bloggi. Mér sýnist ég þurfa að lifa með því frekar en að búa til nýja síðu því ég get ekki séð neina leið til að breyta þessu. Og bíp forði mér frá því að þurfa að hugsa upp fleiri ný lykilorð að lífi mínu.

Ég hélt að bankinn myndi hætta að rukka mig um að skipta um lykilorð á þriggja mánaða fresti þegar ég fékk aðgangslykilinn.

Ég hélt ekki að starf mitt væri svo merkilegt að ég þyrfti að skipta um lykilorð á vinnutölvunni á þriggja mánaða fresti.

Ég er auðheyrilega lens í lykilorðum, ég er hætt að muna þau. Og þarf þá að fara að skrifa þau niður og þá er tilgangurinn með þeim orðin að engu.

Spurning um að viða að sér latneskum heitum á plöntum eða skordýrum til að gera næstu lykilorðahrinu lærdómsríkari. Gæti notað einhverja skemmtilega plöntuorðabók til hliðsjónar.

Blogg er kannski ekki besti staðurinn fyrir svona vangaveltur. Núna get ég ekki notað þessa lausn.