sunnudagur, 15. júlí 2007

Barngott fólk

Úff, við litla fjölskyldan lentum í Keflavík núna áðan, eftir tveggja vikna dvöl á Krít, um kl.4 og erum ekki enn farin að sofa því Siggi svaf alla leiðina og er á Krítískum tíma(Krítar brandararnir eru ekki fyndnir mjög lengi, ég veit) klukkan var sem sagt um sjö hjá honum þegar við lentum en við foreldrarnir erum komin með liðaverki af svefnleysi. Við höfum þó ákveðið að vaka saman af því það er skemmtilegra en að skiptast á að sofa, búin að taka uppúr töskum og erum nú sérstaklega skemmtilegir foreldrar í sitthvorri tölvunni að ná okkur uppúr netleysinu síðustu daga. Við vorum á æðislegu fimm stjörnu hóteli(í boði mömmu) en á æðislegum hótelum er nauðsynleg þjónusta oft dýrari en ella svo við ákváðum að borga ekki þúsund kall á dag fyrir kapalnettengingu, þorðum ekki einu sinni að spyrja hvað þráðlaus tenging kostaði. En þó þjónustan hafi kostað sitt var hótelið stórkostlegt... en nú er guttinn orðinn eirðarlaus og eina vitið að fara í sund sýnist mér á ástandinu, það er reyndar spurning hvort við foreldrarnir höfum krafta í það. Ég held áfram seinna að dásama hótelið og Grikkina sem eru eins og fyrirsögnin segir mjög barngott fólk.

Ef þið finnið brúnt fólk á botni Vesturbæjarlaugarinnar í dag þá eru það líklega við Egill.