miðvikudagur, 29. ágúst 2007

Ég er Latte

Samkvæmt kaffiprófinu er ég
Latte!
og samanstend af tvöföldum espresso og flóaðri mjólk.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?


Sem þýðir að ég er: „skapstór og íhaldsöm og læt ekki bjóða mér hvað sem er. Undir vissum kringumstæðum leyfi ég mér að prófa nýjungar, en þó aðeins að vel athuguðu máli".

þriðjudagur, 28. ágúst 2007

Húsráð: Geitungabit

Það er komið, geitungatímabilið ógurlega. Ég lærði húsráð í Ásbyrgi í sumar. Taka sykurmola, bleyta hann og setja á bitið og þá sýgur sykurinn í sig eitrið. Snilld sem kom frá meindýraeyðinum í næsta tjaldi. Takk fyrir hjálpina.

Brunavarnir

Í ljósi þess að það kviknaði næstum því í lifrapylsukeppnum, og svo aftur næstum því út frá gammalli straupressu sem er í þurrkherberginu í kjallaranum, fór ég í brunavarna leiðangur í dag. Fékk mér slökkvitæki, eldvarnarteppi og nýja reykskynjara. Og þvílík snilld, það er hægt að fá reykskynjara með sendum, þannig að ef það kviknar í í kjallaranum þá pípir reykskynjarinn þar og líka reykskynjarinn uppi hjá mér. Og svo öfugt, ég elska svona uppfinningar.

Húsráð: Brunalykt

Það kviknaði næstum í heima hjá nágrönnunum fyrr í sumar þegar lifrapylsukeppur í plastumbúðum bráðnaði í suðupotti þegar vatnið kláraðist. Ég fann einhverja skrítna lykt þegar ég kom inn í húsið en lyktin var alveg eins og þegar verið er að hita upp óhreint grill og þar sem þetta var í hitabylgjunni góðu í júní þá kippti maður sér svo sem ekkert upp við það. En reykskynjarinn í íbúðinni þeirra bjargaði þessu öllu fyrir horn og engar skemmdir á neinu nema lifrapylsukeppnum sem ku þó hafa bragðast mjög vel eftir meðferðina.
Verandi móðir og tiltölulega paranojuð þegar kemur að eldi og reykeitrun þá hringdi ég í slökkviliðið stuttu eftir lætin til að fá staðfestingu á því að það væri óhætt að vera innandyra í brælunni. Ég var sein til sannfæringar en eftir smá mæðu kenndi slökkviliðsmaðurinn mér húsráð, að niðurskorin laukur myndi drepa það litla sem eftir væri, lyktina. Ég þagna alltaf þegar ég heyri gott húsráð. Og það virkaði, lyktin hvarf á augabragði.

miðvikudagur, 8. ágúst 2007

Sérverslanir

Það má ýmislegt skera við nögl og versla í vöruhúsum en ég leyfi mér þann lúxus að kaupa alltaf brauð í bakaríum, kaffibaunir í kaffibúðum, fisk í fiskbúðum, kjöt í kjötbúðum og vín í vínbúðum. Þar sem þessar búðir teljast til sérverslana þá ætti þjónustustigið að vera í efsta gæðaflokki. Í flestum tilvikum er það raunin en þar sem maður fær vínið einungis í vínbúðum þá er svo sem ekkert hægt að vera mjög gagnrýnin á þær, þær hafa að minnsta kosti tekið miklum framförum á síðustu árum eða síðan að maður gat farið að tala upphátt um að maður drekki vín.

Ég reikna með að ég fari svona um það bil þrisvar sinnum í viku í bakarí en þar hefur þjónustustigið aftur á móti lækkað. Vöruframboðið hefur reyndar aukist margfalt á meðan framboð á starfsfólki hefur hríðversnað. Ég held að ég hafi aldrei orðið vitni af eins miklum mannabreytingum eins og í Bakarameistaranum í Suðurveri þegar ég bjó í Hamrahlíðinni. Á hverjum laugardegi var að minnsta kosti verið að þjálfa tvær nýjar stúlkur og líklega hefur ein af hverjum fimmtán haldist í starfi lengur en í mánuð. En það er efni í langan stóran framhaldspistil hvað ungt fólk í dag á auðvelt með að skipta um vinnu (ég vil ekki hljóma eins og ég sé komin yfir sextugt en á margan hátt er ég það, það verður bara að viðurkennast ég er mjög ferköntuð). En á sama tíma og bakaríum helst illa á starfsfólki og framboðið á brauði hefur aukist hefur merkingarkerfið einhvern veginn brugðist.

Ég stend mig að því að fyllast miklum valkvíða þar sem ég stend í röð með númer í hönd og horfi á tíu tegundir af fallegum brauðum í hillunum og í höfuðið hrannast upp spurningar um innihald brauðanna sem ég veit að ég fæ ekki svör við þegar það kemur að mér því afgreiðslustúlkan(ég hef aldrei séð dreng vinna í bakaríi, sorrý) á ekki eftir að geta svarað mér og hún þarf að spyrja aðra sem gerir það að verkum að ég tef ekki bara fyrir röðinni sem ég er í heldur líka hinni og allt fer í steik í hausnum á mér (af því ferköntunin gerir mann svo déskoti kurteisan, sjáðu til) svo það endar alltaf með því að ég bendi á hillu og segi: ,,Nei ekki þetta heldur næsta við hliðina á því, já þetta takk og hvað heitir þetta brauð?" (því einhvern vegin líður mér betur að borða brauð sem ég veit hvað heitir, það er búið að eyða mikilli vinnu í að skíra brauðin og nöfnin gætu gefið örlitla mynd af innihaldinu). Svo kem ég heim og borða brauð sem mig jafnvel langaði ekki í og næst þegar ég fer í bakaríið man ég ekki hvort mér líkaði það eða ekki af því ég vissi ekki hvað var í því.

Í kaffisérverslununum er allar baunir merktar og afgreiðandinn segir mér allt um styrk, gæði og framleiðsluferli baunanna, í fisk og kjötbúðunum er pinni með merkingu í öllum tegundum og samt er afgreislufólkið mjög frótt um vöruna.

Ég vil fá merkimiðana aftur í brauðin.

mánudagur, 6. ágúst 2007

Frilokakæti

Eftir fimm vikna sumarfrí, sem ég skil núna af hverju var fundið upp, er ég þreytt, þunn og ætti að vera löngu farin að sofa, var útkvíld í gær en eftir mjög gott partý í gærkvöld eru batteríin aftur tóm. Ég hlakka til að fara aftur að vinna á þriðjudaginn, ég veit að þar býður mín haust dagskrá til að kynna og þá er gaman. Sjónvarpsdagskráin verður aftur þéttskipuð snilld og ég get hætt að sauma og taka til í skápunum á síðkvöldum mmmm. Svo er farið að dimma aftur og þá fer steingeitinni að líða betur. Styttist í slyddu og myrka hrollkalda morgna. Ok, það er kannski full snemmt að kveðja sumarið en eftir áratuga þjálfun í slæmum sumrum er þetta sumar búið að sanna sig nú þegar. En nú kallar rúmið, góða nótt.