þriðjudagur, 8. janúar 2008

Blessuð tímamót

Þá er þrítugasti og þriðji afmælisdagurinn að kveldi komin. Það er alltaf hálf asnalegt að eiga afmæli á þessum árstíma því það teygjir tímann sem maður eyðir í að meta stöðuna eftir síðasta ár um rúma viku. Þetta hlýtur nú reyndar að fara að venjast eftir 33 ár. 

Síðasta ár var mikið framkvæmda ár en það næsta gæti orðið árið sem verður tileinkað nýjum hlutum. Ég er nefnilega ekki alveg tilbúin að kveðja framkvæmdaárið svo ef ég umorða aðeins þá get ég mjólkað þessa hugmynd aðeins lengur. Það er nefnilega svolítið gott að geta minnt sig á að maður ætli að sér að framkvæma á árinu ef maður hikar eða dokar við nýjar hugmyndir. Ég hef nefnilega alltaf verið svolítið smeik við breytingar og það er ekki að ástæðulausu, ég er fædd á þessum árstíma og stíg mjög varlega en öruggt til jarðar eins og sönn fjallageit. Þar af leiðir að það er sjaldan mikið stuð hjá mér. Ég held ég sé nú ekkert undir meðallagi skemmtileg en ég er svo dauðans vanaföst að það hálfa væri oft ansi gott. Ég lýg því ekki en ég eyði síðkvöldum í að prjóna ullarsokka og vettlinga, baka bananabrauð með möndlum í og horfi ótæpilega á sjónvarp mér til skemmtunar. Það er náttúrulega ekki hægt að lifa svona eins og gamalmenni á þessum blómatíma. 

Til að ögra mér skrifa ég þetta hér og heiti að taka öllum áskorunum á nýju ári af mikilli gleði og framtakssemi. Einu sinni vann ég eins og berserkur og gat skýlt mér á bak við það en nú er ég í eðlilegri dagvinnu á einum vinnustað og hef engar afsakanir fyrir þessari leti.
Gleðilegt nýtt ár þarna úti, eða öllu heldur inni.