miðvikudagur, 12. ágúst 2009

Grátstafur

Grátur í jarðarförum hefur alltaf verið vandræðamál fyrir mig. Lengi hef ég leitað orsaka þess og einnig reynt ýmsar aðferðir við að bæla grátinn.

Það er reyndar ekki aðeins í jarðarförum sem ég græt heldur eiga tárin til að renna við innilegustu og ótrúlegustu upplifanir. Það er ágætis mælikvarði á það hvað snertir mínar dýpstu taugar hvenær ég græt. Ég græt alltaf þegar einhverjir hafa tekið sig til og staðið saman að því að gera eitthvað fallegt eða skemmtilegt fyrir aðra. Það má nefna hinar ýmsu samstöðu skrúðgöngur, t.d. Gay Pride og fjölmenningargönguna. Við þessar aðstæður tók ég nýlega uppá því að hugsa fráhrindandi orð. Orðin sem komu fyrst uppí hugann og urðu fyri rvalinu voru: ,,drulla, skítur”. Ekki falleg orð, en gera sitt gagn þegar maður er orðin ansi þreyttur á því að þykjast vera síhnerrandi í hvert skipti sem gefandi augnablik eiga sér stað.

Mér er minnistætt að hafa hnerrað ótt og títt á frábærum útgáfutónleikum Páls Óskars fyrir ári síðan. Hann hélt sér tónleika að degi til á Nasa fyrir krakka. Aðgangur var frír og ímynda ég mér að það hafi snert mig svona óskaplega að hann skyldi leggja það á sig að gefa krökkunum þessa gjöf. Gleðin skein af öllum andlitum sem fengu að sjá átrúnaðargoðið í öllu sínu veldi og voru foreldrarnir djúpt snortnir en kannski ekki allir að hemja ekkasogin yfir fegurðinni eins og sumir.

Við þessi tækifæri er kannski allt í lagi að hugsa ljótu orðin til að sonur minn, sem vex hratt úr grasi, taki ekki upp á því að neita að fara með mér á mannamót. En í jarðarförum er mér ómögulegt að hugsa ljót orð til að bægja tárunum frá. Það þyrmir yfir mig samkenndin á þeim stundum og ég er byrjuð að hágráta og snýta mér í forspilinu. Ég missti náinn fjölskyldumeðlim ung og hef ég því leitt að því líkum að ef fyrsta jarðaförin er erfið þá verði þær allar erfið minning um hana um ókomna tíð. Góð kona sem ég þekki fer mikið í jarðarfarir sagði mér að öllum liði svona og maður þyrfti að einbeita sér frá sorginni og finna sér hlut inní í kirkjunni til að horfa á þegar tárin bærðu á sér. Til dæmis skoða loftlistana í kirkjunni vel eða telja pípurnar í orgelinu. Önnur góð kona sem ég þekki minna sagði mér að ég væri greinilega sjúklega meðvirk og ætti að fara strax í þerapíu og vera lengi...

Ég hef reynt allar mögulegar aðferðir, nema þerapínua, en engin þeirra virkar fyrir mig því á endanum bresta alltaf kirtlarnir og upp er tekinn vasaklúturinn. Því skammast ég mín bara niður í tær og fæ vorkunnaraugu frá öllum nærstöddum sem mér er fyrirmunað að skilja hvernig geta verið svona kaldir að fella ekki eitt einasta tár yfir missi ættingja eða vinar. Á þessum stundum líður mér eins stelpukjána sem ,,kann” ekki að halda aftur af tilfinningum sínum því það hljóti að vera svo mikil dyggð.

Amma mín heitin, sem var yndisleg kona, fussaði yfir þessari óþarfa tilfinningasemi minni og gaf í skyn að ég væri að draga að mér athygli. En nei, mikið óska ég þess heitt að vera laus við tilfinningasemina og geta bara fallið inní hjörðina án þess að þurfa að skammast mín niður í tær á svona stundum. En svona verður þetta víst að vera nema ég flytji til Ítalíu eða annars káþólsks ríkis og finni mér grátkór sem ég gæti jafnvel öðlast virðingu í fyrir hæfni mína á þessu sviði.