þriðjudagur, 22. apríl 2008

Þróun

Ég er búin að melta með mér lengi hvernig ég eigi að skrifa um stærsta áhugamál mitt, leikna íslenska sjónvarpsefnið sem hefur nú loksins litið dagsins ljós í þeim mæli að hægt sé að tala um það og ekki má gleyma að nú er komin samanburður. Næturvaktin, Pressa og Mannaveiðar eru afurðir vetrarins og svo má nefna Alla liti hafsins í samhenginu þó nokkur ár séu síðan sú þáttaröð var sýnd. Handrit Allra lita hafsins var frumsamið og bar þess merki að hafa fengið að malla á þróunarstiginu í nógu góðan tíma til að sagan var heilsteypt og virkaði í sjónvarpi og hefði þá mátt gefa sér að næsta leikna þáttaröð RÚV yrði jafngóð eða betri. En nei, handrit Mannaveiða var ekki fullunnið fyrir sjónvarpsþáttaröð. Þáttaröðin ber þess merki að engu var til sparað í tæknilegri útfærslu og það er gott að við erum ekki eftirbátar nágranna okkar á því sviði en mig grunar að samkeppnin við Stöð 2 hafi verið á kostnað handritsins.

Nú hefur Kvikmyndamiðstöð Ísland í samstarfi við sjónvarpstöðvarnar allar haldið námskeið og fyrirlestra síðustu ár, þar ber fyrstan að nefna fyrirlestur Sven Clausen framleiðanda frá DR. Hann útskýrði hvernig DR hafði gert risastóra og rándýra könnun á því í Danmörku hvað fólk vildi sjá í ríkissjónvarpinu sínu. Það kom í ljós að á vissum stöðum í landinu voru þjóðfélagshópar sem horfðu ekki á sjónvarp lengur, til að mynda ungt fólk sem fer mikið í bíó, þá bættu danir við þyrlum og smá Bond í spennuþættina sína og hópurinn festist við skjáinn. Viss hópur kvenna á Jótlandi vildi sjá annað en konur sem búa í miðborgum og þar fram eftir götunum. En allar þessar kannanir leiddu í ljós að það var þörf og markaður fyrir að eyða meiri fjármunum í framleiðslu á stórum þáttaröðum sem hafa nú sannað sig á heimsvísu. Sven Clausen fór svo í saumana á öllu ferlinu og hvað skiptir mestu máli í framleiðslunni?, jú þróunin á handritinu. Þeir fá einn aðalhöfund til að semja söguna frá upphafi til enda og svo eru fengnir höfundar til að krydda sögu hvers þáttar og bæta við hugmyndum til að fá fleiri sjónarhorn í söguna, tengja hana nær okkur sem horfum svo okkur sé ekki sama um afdrif söguhetjana. Við höfum límst við afraksturinn og ekki að ósekju danir gera framúrskarandi sjónvarpsefni.

Þeir sem eru svo heppnir að hafa séð Pressu geta séð að aðferðin að eyða tíma í þróunina ber árangur. Þar voru menn greinilega að stytta sér leið og nota hugmyndafræði sem er búin að sanna sig og við þurfum ekki að brenna okkur á. Pressa er mjög spennandi, í henni eru notuð öll tæki til að láta okkur þykja vænt um söguhetjurnar og bíða spennt eftir næsta þætti. DR hafði komist að því að lögguþættir þóttu ágætir en áhorfendur vildu fara heim með söguhetjunum, sjá hvernig þær búa og upplifa með þeim þeirra daglegu vandamál. Þetta gerðu Óskar Jónasson og Sigurjón Kjartansson af stakri snilld og fengu til liðs við sig spennusagnahöfunda til að bæta við þeirra sýn. Samstarfið gekk upp og tók tíma. Þeim var gefin tími til að vinna handritið til fullnustu áður en rokið var í tökur.

Hvað voru forsvarsmenn RÚV að gera þá? Að henda peningum í ófrágengið handrit. Mannaveiðar höfðu alla burði til að verða góð þáttaröð, góð saga og rjóminn af leikaraliðinu. En persónusköpunin var ekki tilbúin, sögunni var ekki skipt nógu vel uppí þætti, cliffhangerarnir voru engir og leikstjórnin afburða slök. Ég sat við skjáinn með gagnrýnu gleraugun. Og naut einskis.

Vonandi tekst RÚV betur til næst því peningarnir eru til og viskan er innflutt svo við þurfum ekki að brenna okkur oftar á byrjendamistökum.

Engin ummæli: