fimmtudagur, 10. apríl 2008

Nú er ég ekki lengur...

... starfsmaður ljósvakamiðils svo ég get úttalað mig um hluti sem mættu betur fara í sjónvarpi, að mínu mati. Í þessari viku einni(og hún er ekki liðin) hafa þrjú tæknileg atriði farið alla leið inn í merg á mínum fínustu sjónvarpsbeinum og öll eru þau runnin undan rifjum míns gamla vinnustaðar Sjónvarpinu.
Það fyrsta er eiginlega verst því um var að ræða stórkostleg viðtal Evu Maríu við Víking Heiðar píanóleikara. Þar bar svo við að þátturinn hafði ekki verið nægilega vel yfirfarin, svartur skyndirammi á ekki að sjást í þætti á þessu kalíberi. Svo hefur hljóðmaðurinn ekki verið viðbúin því að Víkingur myndi tala við Evu á meðan hann spilaði á flygilinn og varð því hljóðvinnslan til þess að ekki heyrðust nokkrar setningar. Í þessu tilfelli skipti hljóðáferðin á flyglinum engu máli aðeins það sem Víkingur hafði að segja, ofsalega sárt að missa þráðinn í svona góðu og sjónvarpsvænu viðtali þar sem spurt er spurninganna sem við öll viljum vita svörin við. Mjög mannlegt, einlægt og vandað viðtal.
Stuttu síðar í Sjónvarpinu sama kvöld eftir Mannaveiðar(þær fá sér pistil við tækifæri) birtist trailer fyrir lokaþáttinn af Mannaveiðum með rifnu hljóði! Sárt og niðurlægjandi fyrir tæknilega vandaða þáttaröð. Sami trailer birtist á mánudagskvöld og þriðjudagskvöld, ennþá með rifnu hljóði. Alveg glatað að laga þetta ekki eftir fyrstu birtingu!
Á þriðjudagskvöldið var svo sýnt mjög áhugavert viðtal Boga Ágústsonar við leiklistarstjóra Danmarks Radio. Viðtalið var gott en hljóðið ónýtt, algjörlega ónýtt og myndskreytingarnar tóku mann svo í ofanálag alltaf útúr viðtalinu því þær voru ekki vel gerðar. Þátturinn ber þess merki að vera ódýr en það er ekki bjóðandi uppá á það að hann sé svo ódýr að Bogi fari einn til Danmerkur og fái einungis að ráða kamerumann sem hefur greinilega aldrei þurft að vinna svo ódýrt að hann þurfi að taka upp hljóð líka því það kunni hann greinilega ekki. Svona hljóðupptöku verður ekki bjargað í eftirvinnslu og af kreditlistanum að dæma var engin eftirvinnsla á þættinum. Þessi þáttur er mikilvægur fyrir Sjónvarpið. Viðtöl Boga við erlenda sérfræðinga eru vel unnin og eiga skilið meira fjármagn. Alveg væri ég til í að sleppa við eina bandaríska þáttaröð af skjánum til að betur væri farið með innlendu dagskrárgerðina.
Hana nú, koma svo og vanda sig!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Tók eftir þessu sama í sambandi við hljóðið þegar Víkingur fór og spila á flygilinn og tala í leiðinni.... pirraði mig ekkert smá þegar ég heyrði ekki hvað hann sagði!

Ragga