...en ekki hvaða ár það var sem ég fermdist. En ég er fædd '75 svo do the math.
Tók allan pakkann þó ég væri nú ekki þekkt fyrir dömulegheit: permó og ljós. Já, það var engin að velta fyrir sér hvort það væri hættulegt þá að fara í ljós. Permóið lak reyndar úr strýinu á nokkrum dögum en það hékk á fermingardaginn og aldrei meir, alltaf jafn furðulegt að sjá myndina heima hjá mömmu, krakkinn með snarkrullað hár einu sinni á ævinni og það var ljósmyndað í bak og fyrir.
Mig minnir reyndar að ég hafi verið alvön ljósabekkjum á þessum tíma, var send til að brúnka upp fyrir sólarlandaferð 9 ára gömul held ég, það þótti alveg óþægilega eðlilegt þá. Það var reyndar alveg út úr karakter fyrir krakkan í rifnu gallabuxunum af bróður sínum og takkaskónum að fara í ljós. Og ég brann alveg jafn mikið í sólinni á Mallorca þrátt fyrir uppbrúnkuna. En ég lifi.
Ég var einkennilega stressuð fyrir ferminguna, tók þetta allt mjög alvarlega. Leit mjög upp til prella(Sr.Guðmundur Þorsteinsson) og hef líklega aldrei verið með eins mikla trúarvitund á ævinni en þessar vikur sem fermingarfræðslan stóð yfir. Ég man þó ekki eftir að þetta hafi verið rætt á milli okkar vinanna en við pabbi hljótum að hafa diskúterað trúmálin eins og flest annað.
Ég tók þetta alla vega það nærri mér að ég át ekkert í marga daga og það uppgötvaðist ekki fyrr en í fermingarveislunni, þegar ég loksins slakaði á, þá áttaði ég mig á því að tertusneiðinn sem ég hámaði í mig var það fyrsta sem ég hafði borðað í 3-4 daga, ég man hvað ég var hissa. En ég stóð uppi í athöfninni og uppskar góðan hlátur í kirkjunni því ég játaði prella á innsöginu.
Það stendur samt alltaf hæst uppúr minningunum að mömmu tókst að sigra þrjósku dótturina í fyrsta skiptið þennan veturinn. Hún er mikil handavinnukona og líklega eftir að hafa þurft að sauma jakkaföt og bindi í jólaföt á mig árin áður stillti hún mér upp við vegg nokkrum mánuðum fyrir fermingu og sagði: ,,Sigrún, þú verður í kjól á fermingardaginn, ég ætla að sauma hann og það verður aldrei rætt meira". þetta virkaði því ég sá og heyrði á henni að annars gæti ég bara leitað annað eftir húsaskjóli. Ég maldaði ekkert í móinn og fékk með því að vera góð að taka þátt í að velja efnið og sniðið, dæsti svo í lágmarki yfir að þurfa standa uppá stól með títuprjóna í öllum skrokknum. Þetta fór því allt vel.
Fyndnast er nú sennilega þegar ég lít til baka hvað ég var feimin, ég man mér fannst algjör kvöl og pína að taka á móti gestum í mínu nafni og veislusiðir mínir voru ekki mjög kurteisislegir, meira brussulegir. Þannig var nú það.
föstudagur, 7. mars 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Hahahaha. Kunnuglegar lýsingar fyrir árgang '74. Ég var eins og vannærður drengur í hvítu pilsi og peysu í stíl, með undarlega vængjagreiðslu og of stórt nef. Magnað að láta börn fermast á þessu óheppilega tímabili.
Gleymi því aldrei þegar mömmu tókst að klína á mig maskara og varalit í tilefni dagsins!!
Ragga
Ha ha ha, snillingar. Ætli við verðum nokkuð skárri við okkar börn? En það verður þá til heiðurs mæðra okkar eða innheimta á skuld við mæður okkar... ;O)
Skrifa ummæli