Hvað á maður að ganga langt í öskudagsbúningum fyrir börnin sín? Ég fór með Sigga á Klambra í morgun íklæddan sjálfum Íþróttaálfinum og fékk mergjaðan móral yfir því að hafa bara ekki eins og skynsöm móðir myndi gera, saumað litla skikkju á hann úr gömlu handklæði og rétt honum rakettuprik sem töfrasprota og sannfært hann um að það væri flottast.
Nei, ég spurði drenginn í síðustu viku hvað hann vildi vera og bjóst náttúrurlega við að þurfa að útskýra fyrir honum hvaða þýðingu öskudagurinn hefði, ónei, minn maður mun fróðari en í fyrra, brosti allan hringinn og viðurkenndi fyrir mér dreyminn á svip: ,, ég vil vera Íþróttaálfurinn". Ég var svo sem ekki hissa, en minnug þess að hafa saumað búning á hann í fyrra sem hann fór aldrei í og dramað sem ég upplifði í kringum það að barnið mitt væri að missa af þessum stóra degi fylltist ég einhverri ruglu og hljóp inní Hagkaup og keypti dýrari týpuna af búningnum með vöðvunum og gleraugunum og öllu tilheyrandi til að uppfylla óskir barnsins sem vissi hvað hann vildi. Aldrei hef ég séð drenginn eins stoltan og ánægðan með neina gjöf, mér leið eins og ég hefði gefið honum krafta Íþróttaálfsins en ekki búninginn og fylltist miklu stolti yfir að hafa gert rétt.
Þetta var í síðustu viku. Svo í morgun þar sem ég horfði á börnin sitja saman við morgunverðarborðið í leikskólanum mörg hver í heimagerðum búningum, Sunnu bestu vinkonu með teiknuð veiðihár, stóra slaufu í hárinu og kisubol. Einn gutta í Superman náttfötunum sínum og annan í löggubol með teiknað skegg, öll alveg rosalega ánægð fylltist ég þessum móral sem ég get bara ekki hrist af mér. Nú er ég búin að setja standardinn hátt og verð næstu árin að súpa seyðið af því, nýr ofurhetjubúningur á hverju ári....æi nei! Ég ætlaði alltaf að vera svona mamma sem tæki ánægjuna af að búa til fram yfir aðkeypt dralon, saumað í Asíu af fólki sem fær lúsalaun og býr ekki við sjálfsögð mannréttindi.
Ég þarf að horfast í augu við eigin fordóma í dag, ég er ein af þessum mömmum sem kaupi tilbúin búning handa barninu á öskudaginn. That's me.
miðvikudagur, 6. febrúar 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Ha ha ha sé Siggaling alveg fyrir mér í búningnum... hoppandi út um allt og bókstaflega ORÐINN sjálfur Íþróttaálfurinn!!
Hey! á næsta ári þá tekurðu bara fram saumavélina og saumar skykkju úr gömlu handklæði og teiknar á hann skegg.... eða eitthvað! Málið leyst og öskudagurinn í ár fokinn bakvið hól!
Ragga
Hmmm...veit ekki alveg með handklæðið, mér heyrist að á næsta ári verði það Bósi ljósár, ónefnd frænka gaf honum Toy Story um daginn og Bósi er ofarlega í umræðunni þessa dagana og er klárlega flottasti búningur sem Siggi hefur séð lengi. Spurning um að ónefnd frænka byrji að safna og gefi honum bara búningin á næsta ári svo mömmunni líði betur ;o)
Við skulum vona að hún þurfi ekki að ferðast langt til að versla hann, gæti orðið dýrt...
Skrifa ummæli