fimmtudagur, 21. febrúar 2008

Þjónustustig á fermetra

Ég er búin að fara þrjár sérferðir í Blómaval til að kaupa mér pottaplöntu, ég hef ekkert vit á pottaplöntum og þarf því aðstoð. Það eru kannski engin geimflaugavísindi að finna sér blóm en ég veit bara að það þarf einhverja ultra suðræna stofuplöntu til að þrífast í suðurglugga og ég ítreka að ég hef ekkert vit á blómum fyrir utan að flest mega ekki vera í beinni sól. Ég hef fundið starfsmenn í afskornum blómum og í lífrænu deildinni í Blómaval en það er sjaldan starfmann að finna í pottaplöntunum, í annari ferðinni rakst ég reyndar á starfsmann sem var að afgreiða annan en þeir enduðu á að stika alla búðina í leit að einhverju og ég missti sjónar á þeim.

Eftir þessa þriðju ferð datt mér í hug að þetta væri fermetrafjölgunarkrísa hjá fyrirtækjum. Ég er alltaf á ferðinni eftir klukkan fimm eða í hádeginu og þá eru líklega allir góðir starfsmenn í fríi eða í mat eins og ég. Sem er eðlilegt því eftir vissan starfsaldur og reynslu fær fólk að vinna á daginn og eftir því sem verslunum fyrirtækja fjölgar dreifast reynslumestu starfsmennirnir á verslanirnar og þá fækkar þeim hlutfallslega á fermetra.

Þessir tugþúsunda fermetra af nýju verslunarhúsnæði hljóta þá að hafa bitnað mest á þjónustustiginu. Eftir opnun Byko í Garðabæ þá hrakaði þjónustunni t.d. til muna í Byko vestur í bæ, þar eru yfirleitt ungir menn að vinna um helgar sem hafa enga reynslu af smíðum og geta því lítið hjálpað amatör eins og mér.

Ég skil ekki að neinn græði á þessu. Ég hef allavega ekki eytt krónu í Blómaval á síðustu mánuðum og reyni að beina öllum byggingarvöru viðskiptum mínum í Brynju og Slippfélagið, því þar er sjáanleg þjónusta og ég sé ekki að úrvalið sé síðra fyrir snattara eins og mig.

Þannig er nú það...best að fara að þefa uppi rótgróna litla blómabúð.

Engin ummæli: