sunnudagur, 24. febrúar 2008

Forbrydelsen

Úff hvað þetta eru magnaðir þættir, það verður erfitt að horfa á aðrar spennuþáttaraðir eftir þessa mögnuðu fléttu. Sara... 84 fór alveg með þetta í kvöld. Þeir geta þetta danirnir, þvílík list að halda manni við varpið 20 sunnudaga í röð.

fimmtudagur, 21. febrúar 2008

Þjónustustig á fermetra

Ég er búin að fara þrjár sérferðir í Blómaval til að kaupa mér pottaplöntu, ég hef ekkert vit á pottaplöntum og þarf því aðstoð. Það eru kannski engin geimflaugavísindi að finna sér blóm en ég veit bara að það þarf einhverja ultra suðræna stofuplöntu til að þrífast í suðurglugga og ég ítreka að ég hef ekkert vit á blómum fyrir utan að flest mega ekki vera í beinni sól. Ég hef fundið starfsmenn í afskornum blómum og í lífrænu deildinni í Blómaval en það er sjaldan starfmann að finna í pottaplöntunum, í annari ferðinni rakst ég reyndar á starfsmann sem var að afgreiða annan en þeir enduðu á að stika alla búðina í leit að einhverju og ég missti sjónar á þeim.

Eftir þessa þriðju ferð datt mér í hug að þetta væri fermetrafjölgunarkrísa hjá fyrirtækjum. Ég er alltaf á ferðinni eftir klukkan fimm eða í hádeginu og þá eru líklega allir góðir starfsmenn í fríi eða í mat eins og ég. Sem er eðlilegt því eftir vissan starfsaldur og reynslu fær fólk að vinna á daginn og eftir því sem verslunum fyrirtækja fjölgar dreifast reynslumestu starfsmennirnir á verslanirnar og þá fækkar þeim hlutfallslega á fermetra.

Þessir tugþúsunda fermetra af nýju verslunarhúsnæði hljóta þá að hafa bitnað mest á þjónustustiginu. Eftir opnun Byko í Garðabæ þá hrakaði þjónustunni t.d. til muna í Byko vestur í bæ, þar eru yfirleitt ungir menn að vinna um helgar sem hafa enga reynslu af smíðum og geta því lítið hjálpað amatör eins og mér.

Ég skil ekki að neinn græði á þessu. Ég hef allavega ekki eytt krónu í Blómaval á síðustu mánuðum og reyni að beina öllum byggingarvöru viðskiptum mínum í Brynju og Slippfélagið, því þar er sjáanleg þjónusta og ég sé ekki að úrvalið sé síðra fyrir snattara eins og mig.

Þannig er nú það...best að fara að þefa uppi rótgróna litla blómabúð.

miðvikudagur, 6. febrúar 2008

Mömmukomplexar

Hvað á maður að ganga langt í öskudagsbúningum fyrir börnin sín? Ég fór með Sigga á Klambra í morgun íklæddan sjálfum Íþróttaálfinum og fékk mergjaðan móral yfir því að hafa bara ekki eins og skynsöm móðir myndi gera, saumað litla skikkju á hann úr gömlu handklæði og rétt honum rakettuprik sem töfrasprota og sannfært hann um að það væri flottast.

Nei, ég spurði drenginn í síðustu viku hvað hann vildi vera og bjóst náttúrurlega við að þurfa að útskýra fyrir honum hvaða þýðingu öskudagurinn hefði, ónei, minn maður mun fróðari en í fyrra, brosti allan hringinn og viðurkenndi fyrir mér dreyminn á svip: ,, ég vil vera Íþróttaálfurinn". Ég var svo sem ekki hissa, en minnug þess að hafa saumað búning á hann í fyrra sem hann fór aldrei í og dramað sem ég upplifði í kringum það að barnið mitt væri að missa af þessum stóra degi fylltist ég einhverri ruglu og hljóp inní Hagkaup og keypti dýrari týpuna af búningnum með vöðvunum og gleraugunum og öllu tilheyrandi til að uppfylla óskir barnsins sem vissi hvað hann vildi. Aldrei hef ég séð drenginn eins stoltan og ánægðan með neina gjöf, mér leið eins og ég hefði gefið honum krafta Íþróttaálfsins en ekki búninginn og fylltist miklu stolti yfir að hafa gert rétt.

Þetta var í síðustu viku. Svo í morgun þar sem ég horfði á börnin sitja saman við morgunverðarborðið í leikskólanum mörg hver í heimagerðum búningum, Sunnu bestu vinkonu með teiknuð veiðihár, stóra slaufu í hárinu og kisubol. Einn gutta í Superman náttfötunum sínum og annan í löggubol með teiknað skegg, öll alveg rosalega ánægð fylltist ég þessum móral sem ég get bara ekki hrist af mér. Nú er ég búin að setja standardinn hátt og verð næstu árin að súpa seyðið af því, nýr ofurhetjubúningur á hverju ári....æi nei! Ég ætlaði alltaf að vera svona mamma sem tæki ánægjuna af að búa til fram yfir aðkeypt dralon, saumað í Asíu af fólki sem fær lúsalaun og býr ekki við sjálfsögð mannréttindi.

Ég þarf að horfast í augu við eigin fordóma í dag, ég er ein af þessum mömmum sem kaupi tilbúin búning handa barninu á öskudaginn. That's me.