miðvikudagur, 8. ágúst 2007

Sérverslanir

Það má ýmislegt skera við nögl og versla í vöruhúsum en ég leyfi mér þann lúxus að kaupa alltaf brauð í bakaríum, kaffibaunir í kaffibúðum, fisk í fiskbúðum, kjöt í kjötbúðum og vín í vínbúðum. Þar sem þessar búðir teljast til sérverslana þá ætti þjónustustigið að vera í efsta gæðaflokki. Í flestum tilvikum er það raunin en þar sem maður fær vínið einungis í vínbúðum þá er svo sem ekkert hægt að vera mjög gagnrýnin á þær, þær hafa að minnsta kosti tekið miklum framförum á síðustu árum eða síðan að maður gat farið að tala upphátt um að maður drekki vín.

Ég reikna með að ég fari svona um það bil þrisvar sinnum í viku í bakarí en þar hefur þjónustustigið aftur á móti lækkað. Vöruframboðið hefur reyndar aukist margfalt á meðan framboð á starfsfólki hefur hríðversnað. Ég held að ég hafi aldrei orðið vitni af eins miklum mannabreytingum eins og í Bakarameistaranum í Suðurveri þegar ég bjó í Hamrahlíðinni. Á hverjum laugardegi var að minnsta kosti verið að þjálfa tvær nýjar stúlkur og líklega hefur ein af hverjum fimmtán haldist í starfi lengur en í mánuð. En það er efni í langan stóran framhaldspistil hvað ungt fólk í dag á auðvelt með að skipta um vinnu (ég vil ekki hljóma eins og ég sé komin yfir sextugt en á margan hátt er ég það, það verður bara að viðurkennast ég er mjög ferköntuð). En á sama tíma og bakaríum helst illa á starfsfólki og framboðið á brauði hefur aukist hefur merkingarkerfið einhvern veginn brugðist.

Ég stend mig að því að fyllast miklum valkvíða þar sem ég stend í röð með númer í hönd og horfi á tíu tegundir af fallegum brauðum í hillunum og í höfuðið hrannast upp spurningar um innihald brauðanna sem ég veit að ég fæ ekki svör við þegar það kemur að mér því afgreiðslustúlkan(ég hef aldrei séð dreng vinna í bakaríi, sorrý) á ekki eftir að geta svarað mér og hún þarf að spyrja aðra sem gerir það að verkum að ég tef ekki bara fyrir röðinni sem ég er í heldur líka hinni og allt fer í steik í hausnum á mér (af því ferköntunin gerir mann svo déskoti kurteisan, sjáðu til) svo það endar alltaf með því að ég bendi á hillu og segi: ,,Nei ekki þetta heldur næsta við hliðina á því, já þetta takk og hvað heitir þetta brauð?" (því einhvern vegin líður mér betur að borða brauð sem ég veit hvað heitir, það er búið að eyða mikilli vinnu í að skíra brauðin og nöfnin gætu gefið örlitla mynd af innihaldinu). Svo kem ég heim og borða brauð sem mig jafnvel langaði ekki í og næst þegar ég fer í bakaríið man ég ekki hvort mér líkaði það eða ekki af því ég vissi ekki hvað var í því.

Í kaffisérverslununum er allar baunir merktar og afgreiðandinn segir mér allt um styrk, gæði og framleiðsluferli baunanna, í fisk og kjötbúðunum er pinni með merkingu í öllum tegundum og samt er afgreislufólkið mjög frótt um vöruna.

Ég vil fá merkimiðana aftur í brauðin.

Engin ummæli: