Já, það er gaman í mínum bekk. Eftir að hafa sótt um einhver störf sem henta óháskólamenntuðum stúlkukindum tekur biðin við. Hugarkvalir um hvað ég geti nú eiginlega orðið þegar ég verð stór og allt þar fram eftir götunum. ,,Ekki hafa áhyggjur" segi ég keik við alla sem vilja ,, ég fæ vinnu". Og það er alveg rétt ég fæ vinnu en suma daga getur það verið niðurdrepandi að hafa lítið sem ekkert fyrir stafni. Og mikið væri gaman að fá einhverja krefjandi og spennandi vinnu.
Nákvæm naflaskoðun fylgir þessu, vangaveltur um af hverju maður kláraði ekki skólann á sínum tíma, af hverju maður var ekki búin að leggja í sjóð til að geta drifið sig í skóla og þar fram eftir götunum. Ég hef sem betur fer náð þeim tilfinningaþroska að vita svörin við þessum spurningum og veit að einhvern daginn, daginn sem ég verð einhverju nær um hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór, á ég eftir að skella mér í skóla, ég er bara svo fjölþreifin. Í gær þegar ég hlustaði á Þorvald Gylfason í Silfrinu langaði mig í hagfræði, núna þegar ég skrifa langar mig í íslensku og í dag þegar ég gerði við við föt og hadklæði sem höfðu rifnað af furðulegum ástæðum langaði mig í klæðskerann til að geta galdrað fram fullkomlega sniðinn og vandaðann fatnað á örskotsstundu. Skemmtilegast væri að læra þetta allt en það verður að bíða betri tíma. Svo er spurning um að sætta sig bara við yfirborðsþekkingu á mörgum sviðum og teljast þokkalega fjölhæf.
Sökum þess að að ég veit ekkert um framtíðina og fjárhaginn næstu mánuði hef ég dundað mér við að hrista fram sparnaðarhugmyndir. Sú skemmtilegasta er sennilega að baka brauð úr þurrgeri sem rann út í október 2005 (þá var greinilega sparað síðast) , mæli ekki með því en brauðið gæti vel nýst sem vopn ef út í það er farið. Ein sparnaðarleiðin var framkvæmd á laugardaginn, ég smurði eggjasamlokur og skellti kaffi og djús á brúsa og dreif gaurana með mér uppí Heiðmörk í ókeypis skemmtun. Eftir góðan göngutúr, eltingaleik við rjúpu og nestisát vorum við fyllt verkorku og næstu sparnaðarhugmyndir voru að fara vel með hlutina sem fjárfest var í í góðærinu, lofti var pumpað í slöngurnar á hjólinu og það þrifið, bíllinn þveginn að innan sem utan og einhverjir sex eða sjö boltar sem ég fann í garðinum skoppa nú allir eftir loftgjöf. Allt sem notað var í þessar aðgerðir var til á heimilinu og hefði ég líklega frekar notað uppþvottalög á bílinn en að eyða krónu á þessum yndislega degi.
Ég verð að viðurkenna að skipulagsfíkillinn og verkstjórinn í mér eru á nettu einkaflippi í þessu átaki og ásamt því að spara í mat og drykk hef ég dregið fram saumavélina og komist í gegnum uppsafnaðann fatabunkann sem þurfti viðgerðar, það er ekki eins og ég hafi ekki tíma...
Svo er tekinn vistvænn hjólreiðatúr í Bónus og ekkert keypt nema það standi á miðanum.
Kemst við af stolti við það eitt að kaupa þurrkaðann parmesan(kannski er það bara ostlíki ;o) á 82 kr. og baka súkkulaðikökur í tonnavís í stað þess að fara í bakarí í tíma og ótíma.
Ég rétt náði í rassinn á síðustu krepppu, líklega af því foreldrar mínir voru að byggja í kringum 1980 og þakka fyrir það nú að vita hvernig maður á að haga sér á svona stundum. Ekki man ég eftir að mamma keypti nokkurn tíma eitthvað sem fór í ruslið myglað og ég man bara ekki eftir einu einasta bruðli á uppvaxtarárunum. Mann skorti þó ekkert en þótti þó fyrirlestur pabba á hverjum páskum um að hann og hans systkyni hefðu aldrei fengið páskaegg (þau voru sjö) heldur hafi verið keypt súkkulaðistykki á línuna orðin svolítið þreyttur þegar maður var komin á unglingsárin og svei mér þá ef það var ekki bara til Camembert og rjómi í ísskápnum við minnsta tækifæri þá.
Merkilegt nokk að það eina sem ég sakna af því sem ég tók út af budgetinu er bjór og ég fæ mér aldrei bjór þegar hann er til. Alveg furðulegt, var að hugsa um að fá mér þá bara gin en það er alveg jafn fáránlegt og að sakna bjórs, kannski eitt púrtvínsstaup bjargi þessu? Nei... ætli ég baki ekki bara enn eina súkkulaðikökuna.
mánudagur, 14. apríl 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli